Eitt ár eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur er Kærleikskúla ársins 2021. Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til sumarbúða Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal.
Kúlan er umvafin teikningu sem lýsir sólargangi eftir árstíma á Íslandi, allt frá löngum björtum sumarnóttum að vetrarsólstöðum þegar birtu nýtur aðeins í örfáar klukkustundir á dag. Teikningin sýnir ólík birtustig sólarhringsins og þá afgerandi árstíðabundnu sveiflur sem við upplifum hér við heimskautsbaug. Litirnir fimm sem hverfast um kúluna tákna; dögun, birtingu, dagbjart, sólarlag og myrkur. Litirnir sem eru mest áberandi eru; gulur fyrir hábjartan dag og blár fyrir myrkur næturinnar, þar á milli raða sér rauðgulur, bleikur og fjólublár fyrir ljósaskiptin. Verkið reynir að fanga eitthvað sem við þekkjum svo vel í okkar daglega amstri en talar einnig til stærra samhengis okkar, til síbreytilegrar stöðu okkar í himingeimnum þar sem við snúumst um ás á sporbaug um sólu.
- Sirra Sigrún Sigurðardóttir
Kærleikskúlan kemur í fallegri gjafaöskju